Vegna mikilla rigninga og leysinga síðasta sólarhringinn hafa ár og lækir flætt yfir bakka sína víða á Suðurlandi.
„Það eru miklir vatnavextir í ám um allt land enda búin að vera hláka með hlýindum og úrkomu. Rennsli er mikið í Ölfusá, en vatnshæðarmælir sýnir að rennsli sé um 1.300 m3. Það virðist vera að ná hámarki við Selfoss,“ sagði Einar Sindri Ólafsson, hjá Eldfjalla- og náttvárhópi Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is, í kvöld.
Miklar leysingar eru á vatnasviði Hvítár og eftir að Stóra-Laxá ruddi sig í gærkvöldi er Auðsholt í Hrunamannahreppi umflotið vatni, sem þykja svosem ekki tíðindi þar um slóðir.
Vatnshæðin í Ölfusá við Selfoss er svipuð og þegar mest varð í desember en þá var mun meiri ís á ánni. Nú er mikið flug á ánni við Selfoss en litlu neðar, við Flugunes í Sandvíkurhreppi er vegleg ísstífla og flæðir áin yfir bakka sína þar, niður með Kotferju og niður í Kaldaðarnes. Að sögn Einars Sindra er ísstíflan á svipuðum stað og í desember.
Í síðustu viku flæddi Hvítá framhjá Flóðgáttinni á Brúnastaðaflötum en þar er nú allt með kyrrum kjörum.
TENGDAR FRÉTTIR: