Skömmu fyrir jól urðu þau tímamót á Höfn í Hornafirði að heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli var í fyrsta skipti hleypt á hús sem tengd eru fjarvarmaveitu bæjarins.
Þar með rætist langþráður draumur Hornfirðinga um að jarðhiti komi í stað raf- og olíukyndingar en tæp 30 ár eru síðan byrjað var að leita skipulega eftir heitu vatni í Hornafirði.
Það voru Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Hafnar og Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, sem hleyptu heita vatninu frá Hoffelli inn á veitukerfi bæjarins í fámennri athöfn í dælustöð RARIK við Stapa í Nesjum í Sveitarfélaginu Hornafirði.
„Þetta er góð jólagjöf til íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem hafa lengi látið sig dreyma um hitaveitu. Nú tengjast um 75% íbúa á Höfn hitaveitunni í gegnum fjarvarmaveituna sem fyrir er. Á næsta ári verður hægt að ljúka tengingum í Nesjum og það sem upp á vantar í þéttbýlinu. Íbúar munu líklega ekki finna fyrir mikilli lækkun á kostnaði fyrstu árin en til framtíðar bætir þetta lífsgæði Hornfirðinga sem um munar og gerir sveitarfélagið að áhugaverðari búsetukosti. Bæjarstjórn hefur lagt sig fram við að létta undir með íbúum m.a. með magninnkaupum á tengigrindum og átt mjög gott samstarf við RARIK um framkvæmdina,“ segir Matthildur bæjarstjóri.