Vatnslagnir í Ölfusárbrú stækkaðar

Ljósmynd/Árborg

Á síðustu mánuðum hafa Selfossveitur undirbúið virkjun á heitavatnsholunni SE-40 á Fossnesi á Selfossi, sem var lokið við að bora í byrjun árs 2023.

Holan gefur töluvert af heitu vatni en ein af áskorununum við virkjun hennar er að núverandi lagnir í Ölfusárbrú eru of grannar og var ljóst að stækka þyrfti lagnirnar til að koma meira af heitu vatni yfir brúnna.

Á síðasta degi októbermánaðar hóf Vélsmiðja Suðurlands vinnu við að skipta út hitaveitulögninni í Ölfusárbrú en verkið felst í því að draga út gamla lögn sem er í brúnni og setja sverari lögn í staðinn.

Með þessu eykst flutningsgeta í brúnni töluvert sem er mikilvægt bæði fyrir framtíðar uppbyggingu norðan ár og meiri orkuöflun.

Stefnt er að því að ljúka verkinu í nóvember en það er eitt af mörgum verkþáttum sem þarf að vinna til að hægt sé að koma vatni inn á dreifikerfi Selfossveitna. Stefnt er að því að öllum aðgerðum verði lokið og holan á Fossnesi komin í gagnið haustið 2024.

Fyrirhuguð ásýnd borholunnar á Fossnesi. Mynd/Selfossveitur
Fyrri greinSveitarstjórn vill sjá raunverulegar og öflugar tillögur
Næsta greinBrotnir tengdamömmudraumar