„Veðurlagið með ólíkindum“

Það vakti athygli í gær í blíðviðrinu hér sunnanlands að svartaþoka var á Hellisheiði síðdegis frá Kambabrún vestur að Draugahlíð á meðan glaðasólskin var í Þrengslunum.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir veðurlagið með ólíkindum þessa dagana. „Vestan- og suðvesturundan landinu er háþrýstingur og með honum milt loft sem jafnframt er að upplagi nokkuð þurrt. Neðstu lög þess aðlagast nokkuð sjávarkuldanum og því myndst þoka við yfirborð,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is.

„V-áttin drífur síðan að þessar þunnu þokuslæður utan af Faxaflóa og stundum nær landið að bræða hana af sér og stundum ekki. Þoka eða rakt loft af þessari gerð nær sjaldnast austur fyrir fjall, nema í þeim tilvikum þegar það skríður inn yfir Selvog og áfram austur úr,“ segir Einar.

Í gær var 19°C hiti og logn í Skaftafelli og á Veðurstofan von á því að góðviðrið haldist næstu daga suðaustanlands.

Fyrri greinSigurður Bogi kynnir nýja bók
Næsta greinHöfðu leyfi frá yfirvöldum