„Veðrið hefur leikið okkur grátt“

Bílastæðin við Eyraveg 42 eru ófrágengin, með tilheyrandi óþægindum fyrir viðskiptavini. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Bílaplanið við nýju Nettóverslunina að Eyravegi 42 á Selfossi er enn óklárað með tilheyrandi óþægindum fyrir viðskiptavini. Til stóð að malbika planið síðasta haust en þær áætlanir fóru forgörðum meðal annars vegna slæms tíðarfars.

„Okkur þykir það mjög miður að lokafrágangurinn á bílaplaninu hafi tafist. Tafirnar hafa meðal annars verið vegna lagnakerfis á lóðinni sem hafa hliðrað til öllum frágangi nú í vetur,“ segir Bóas Ragnar Bóasson, rekstrarstjóri Nettó, í samtali við sunnlenska.is.

Sinna viðhaldi eftir fremsta megni
„Svo er það veðrið sem hefur leikið okkur grátt. Þegar hlánar og miklir umhleypingar eru í veðri þá tefur það því miður lokafrágang. Það er stefnt að því að klára þetta eins fljótt og aðstæður leyfa, en að sama skapi viljum við tryggja að verkið sé vel unnið og undirlag og yfirborð endist vel.“

„Við höfum reynt eftir fremsta megni að sinna viðhaldi á svæðinu í samvinnu við húseiganda og munum halda því áfram til að valda sem minnstri röskun fyrir viðskiptavini okkar.“

Taka vel á móti ábendingum
Bóas segir að þau reyni að bregðast snöggt við öllum ábendingum með úrbótum og þau taki áfram vel á móti öllum ábendingum frá viðskiptavinum.

„Okkur langar að þakka fyrir virkilega góðar viðtökur við versluninni, sem við höfum fengið frá viðskiptavinum bæði á Selfossi og úr nærsveitum og hvetjum fólk til að keyra áfram varlega og eftir aðstæðum þegar það fer um bílaplanið,“ segir Bóas að lokum.

Fyrri greinByr í seglum á fundi um vindorku
Næsta greinSyrti í álinn á lokamínútunum