Vegagerðin hefur undirritað yfirlýsingu þar sem fallist er á að ný tenging við Tryggvatorg á Selfossi verði opnuð þegar gatnagerð er lokið í A- og B-götu samkvæmt deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss.
Afstaða Vegagerðarinnar hingað til hefur verið sú að fallast ekki á tenginguna fyrr en Suðurlandsvegur hefur verið færður austur fyrir Selfoss. Ástæða þess er að líkur eru taldar á að umferðaróhöppum í hringtorginu fjölgi.
Verði umferðaróhöpp sem rekja má til nýrrar tengingar tíð eða alvarleg áskilur Vegagerðin sér rétt til að fara fram á að tengingunni verði lokað eða gripið til annarra aðgerða til að draga úr óhöppum, s.s. að snúa einstefnu við í A-götu sem tengist Tryggvatorgi.
Er í yfirlýsingunni horft til þess að niðurstöður umferðarspár sem VSÓ gerði fyrir nýjan miðbæ samkvæmt hermun á umferð eru þær að áhrif af nýju deiliskipulagi séu óveruleg á afkastagetu Tryggvatorgs.
Auk þess hefur verið brugðist við athugasemdum Vegagerðarinnar er varða aðkomu að lóðinni við Eyraveg 5, en annarri útkeyrslunni frá lóðinni var lokað síðastliðið sumar. Engu að síður kallar aukið byggingarmagn á aukna umferð, og því áskilur Vegagerðin sér þann rétt sem að framan greinir.