Vegagerðin hefur ákveðið að umferðareyjar í tveimur þéttbýlishliðum inn í þjóðgarðinn á Þingvöllum verði teknar niður. Yfirborðsmerkingar munu halda sér en þær verða bættar.
Til frekara öryggis og til að freista þess að ná því markmiði að hægja á umferðinni verða fræstar vegrifflur í merkta svæðið.
Þéttbýlishlið eru samkvæmt orðanna hljóðan sett upp á þjóðvegum sem liggja í gegnum þéttbýli og hefur það tekist mjög vel víða um land. Í frétt frá Vegagerðinni segir að ljóst sé að sama útfærsla á leið inn í þjóðgarðinn, þar sem ekki er þéttbýli, er óheppileg og voru mistök að sjá það ekki fyrir. Auk þess krefst slíkt veglýsingar sem ekki er fyrir hendi.
Eyjarnar verða teknar niður svo fljótt sem verða má og segir Vegagerðin ljóst að mistök voru gerð við framkvæmdina þar sem eyjarnar voru settar upp áður en yfirborðsmerkingar voru málaðar en það hefði þurft að gerast áður eða samtímis. Vegagerðin biðst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.