Að sögn Indriða Kristinssonar, hafnarstjóra í Þorlákshöfn, er augljóst að Herjólfur muni sigla mun meira til Þorlákshafnar en áætlanir Vegagerðarinnar gerðu ráð fyrir þegar Landeyjahöfn var opnuð sl. sumar.
,,Þeir töldu sig vera farna fyrir fullt og allt og vildu bara láta rífa húsin. Sem betur fer var það ekki gert og það er ljóst að það verður aldrei gert,” sagði Indriði en fyrstu áætlanir Vegagerðarinnar gerðu ráð fyrir að aðeins yrði um 2% brottfall á ferðum Herjólfs til Landeyjahafnar.
Eins og Sunnlenska hefur greint frá þá var gerður árssamningur um aðstöðuna í Þorlákshöfn sem felur í sér að höfnin fær greitt fyrir hverja ferð ferjunnar. Að sögn Indriða eru greiðslur orðnar nokkru meiri en ráð var fyrir gert enda Herjólfur eingöngu siglt til Þorlákshafnar það sem af er ári.
Indriði segir að gert sé ráð fyrir að þessi samningur verði endurnýjaður einu sinni á ári.