Vegagerðin hefur fest kaup á húsinu Gömlu Þingborg í Flóahreppi, sem stendur við Þjóðveg 1. Kaupverðið er 72,5 milljónir króna.
Húsið stendur innan veghelgunarsvæðis núverandi Hringvegar og í væntanlegu framtíðarvegstæði Hringvegar og er fyrirhugað að það víki á næstu árum en til stendur að breikka þjóðveginn frá Selfossi og allt að Markarfljóti í nokkrum áföngum.
Verkefnið er áætlað á öðru og þriðja tímabili ósamþykktrar samgönguáætlunar 2029-2038. Sem liður í þeim áætlunum ákvað Vegagerðin að kaupa húsið þegar ljóst var að sveitarfélagið Flóahreppur hafði ákveðið að setja það á sölu.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að leitast verði eftir því að eiga í góðum samskiptum við þá leigjendur sem nýta húsið. Vegagerðin mun ganga inn í þá leigusamninga sem fyrir eru.