Vegagerðin hefur auglýst drög að tillögu að matsáætlun vegna færslu Hringvegar (1) um Mýrdal.
Árið 2013 var Aðalskipulag Mýrdalshrepps 2012-2028 samþykkt með nýrri veglínu Hringvegar um Mýrdal, í jarðgöng sunnarlega í Reynisfjalli og sunnan við byggðina í Vík.
Samgönguáætlun 2020-2024 gerir ráð fyrir fjármagni í undirbúning þessarar nýju veglínu. Vegagerðin vinnur því að forhönnun og undirbúningi á mati á umhverfisáhrifum vegna færslu Hringvegarins.
Í drögum að matsáætlun er meðal annars gerð grein fyrir helstu áhrifaþáttum framkvæmdarinnar og hvernig staðið verði að mati á umhverfisáhrifum.
Opnuð hefur verið vefsjá (vik-hringvegur.netlify.app) þar sem hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast matinu og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum. Frestur til að senda inn ábendingar er til og með 1. febrúar 2021.