Vegagerðin hefur skrifað undir verksamning við Þjótanda ehf. vegna endurbyggingar Reykjavegar í Biskupstungum.
Verkið mun hefjast í september og verða að fullu lokið árið 2021. Um er að ræða 8 km kafla og brú yfir Fullsæl.
Tilboð Þjótanda hljóðaði upp á 577 milljónir króna. Verkið hefur tafist nokkuð vegna kærumála en Kærunefnd útboðsmála felldi úr gildi upphaflega ákvörðun Vegagerðarinnar um að semja við GT verktaka ehf. og Borgarvirki ehf. um verkið. Kærunefndin úrskurðaði Þjótanda í vil og felldi ákvörðun Vegagerðarinnar úr gildi auk þess sem henni var gert að greiða Þjótanda 600 þúsund krónur vegna málskostnaðar.
Átta kílómetra kafli og ný brú yfir Fullsæl
Verkið felst í breikkun og endurbyggingu Reykjavegar í Biskupstungum í Bláskógarbyggð, frá vegamótum við Biskupstungnabraut að vegamótum við Laugarvatnsveg, ásamt tilheyrandi tengingum, ræsagerð og lögn klæðingar. Lengd útboðskaflans er 8,0 km.
Einnig á að byggja nýja brú yfir Fullsæl. Nýja brúin verður við hlið núverandi brúar og er um 20 m löng eftirspennt brú.