Vegagerðin semur við Þjótanda um Reykjaveg

Svanur G. Bjarnason svæðisstjóri hjá Vegagerðinni og Ólafur Einarsson hjá Þjótanda undirrita samninginn. Ljósmynd/Vegagerðin

Vegagerðin hefur skrifað undir verksamning við Þjótanda ehf. vegna endurbyggingar Reykjavegar í Biskupstungum.

Verkið mun hefjast í september og verða að fullu lokið árið 2021. Um er að ræða 8 km kafla og brú yfir Fullsæl.

Tilboð Þjótanda hljóðaði upp á 577 milljónir króna. Verkið hefur tafist nokkuð vegna kærumála en Kærunefnd útboðsmála felldi úr gildi upphaflega ákvörðun Vega­gerðar­inn­ar um að semja við GT verk­taka ehf. og Borg­ar­virki ehf. um verkið. Kærunefndin úr­sk­urðaði Þjót­anda í vil og felldi ákvörðun Vega­gerðar­inn­ar úr gildi auk þess sem henni var gert að greiða Þjótanda 600 þúsund krón­ur vegna máls­kostnaðar.

Átta kílómetra kafli og ný brú yfir Fullsæl
Verkið felst í breikkun og endurbyggingu Reykjavegar í Biskupstungum í Bláskógarbyggð, frá vegamótum við Biskupstungnabraut að vegamótum við Laugarvatnsveg, ásamt tilheyrandi tengingum, ræsagerð og lögn klæðingar. Lengd útboðskaflans er 8,0 km.

Einnig á að byggja nýja brú yfir Fullsæl. Nýja brúin verður við hlið núverandi brúar og er um 20 m löng eftirspennt brú.

Fyrri greinSvartur uppáhellingur er allra meina bót
Næsta greinMikið um dýrðir á Flúðum um helgina