Gríðarleg rigning á laugardag olli vatnavöxtum og vegaskemmdum á tveimur stöðum í Skaftárhreppi.
Þjóðvegur 1 skemmdist lítillega við Núpsstað þar sem ræsi annaði ekki læk sem byrjaði að renna yfir veginn. „Þetta slapp til, við merktum þetta og hreinsuðum úr ræsinu,“ sagði Bjarni Jón Finnsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, í samtali við sunnlenska.is
Þá fór Prestsbakkavegur í sundur fyrir neðan Mörtungu. Vegurinn varð ófær aðfaranótt sunnudags vegna vatnavaxta í Þverá en gert var við veginn á sunnudagsmorgun.