Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði 58 ökumenn fyrir of hraðan akstur um Hvítasunnuhelgina og átta voru drukknir undir stýri.
Mbl.is greinir frá þessu en þeir sem voru stoppaðir voru töluvert ölvaðir og hrósaði lögreglan á Suðurlandi þeim vegfarendum sem hringdu til að tilkynna um undarlegt ökulag. Einhverjir þeirra sem óku skrykkjótt voru þó ekki ölvaðir, heldur að meðhöndla símtæki undir stýri.
Frá því klukkan 7 á föstudagsmorgun og til 23 í gærkvöldi voru fjórir teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.
Meðal annars var ein stúlka stöðvuð á 119 km/klst hraða. Þegar lögreglan hafði afskipti af bílnum reyndi stúlkan að skipta um sæti við farþega í framsæti en sá var einnig undir áhrifum fíkniefna. Stúlkan var búinn að missa ökuréttindin, var ofurölvi og einnig undir áhrifum fíkniefna. Þau fengu að sofa úr sér í fangaklefa og voru yfirheyrð þegar þau voru skýrsluhæf.