Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar mótmælir harðlega áformum um veggjald sem ríkisstjórnin hefur kynnt sem forsendur fyrir framkvæmdum við bættan Suðurlandsveg.
Í ályktun frá bæjarstjórn segir að nú þegar greiði allir bifreiðaeigendur skatta til ríkisins í formi bifreiða- og eldsneytisgjalda. Með upptöku veggjalda sé verið að tvískatta notendur umræddra vega á meðan að aðrir landsmenn greiða ekki sérstaklega fyrir úrbætur á vegakerfinu. „Slíkt er algjörlega óásættanlegt, brýtur gegn jafnræði íbúa þessa lands og er í beinni andstöðu við áform sem kynnt hafa verið í áætlunum ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu á sterku höfuðborgarsvæði,“ segir í ályktuninni.
„Með veggjaldinu er vegið að lífsafkomu fjölmargra og sem dæmi má nefna þá myndi Hvergerðingur sem ekur hvern virkan dag til vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðinu þurfa að greiða 140.000 á ári í veggjöld. Til að eiga fyrir þessum veggjöldum þarf viðkomandi að vinna fyrir um 233.000,- krónum aukalega á ári. Með áformum ríkisstjórnar er vegið að lífsafkomu fjölda einstaklinga en auk þess snerta áformin með beinum hætti fjölda stórra fyrirtækja sem daglega sjá til þess að nauðsynjar berist inná höfuðborgarsvæðið og veita þar mikilvæga þjónustu. Að reisa múra með þessum hætti umhverfis stærstu byggðarlög landsins er andstætt því samfélagi sem við viljum byggja upp þar sem ríkja ættu hindrunarlausar og góðar samgöngur milli byggðarlaga.“
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar mótmælir harðlega þessum áformum. Jafnframt lýsir bæjarstjórn yfir vilja sínum til viðræðna við ríkisvaldið þar sem leitað yrði leiða til að bæta samgöngur á Suðurlandsvegi án þess að ráðist verði með veggjöldum að afkomu og lífsviðurværi landsbyggðarinnar.