Vegleg gjöf frá kvenfélögunum til Hveragerðisbæjar

Ljósmynd/Hveragerðisbær

Hveragerðisbær í síðustu viku veglega gjöf frá Kvenfélagi Hveragerðis og Kvenfélaginu Bergþóru í Ölfusi.

Formenn félaganna, Dagbjört Guðmundsdóttir frá Ölfusi, Ásta Gunnlaugsdóttir og Sólborg Guðmundsdóttir úr Hveragerði afhentu Pétri Markan bæjarstjóra skautbúning til eignar og varðveislu en búningurinn hefur prýtt fjallkonur bæjarins allt frá árinu 1963.

Búningurinn var upphaflega keyptur af fyrrnefndum kvenfélögum en hin síðari ár hefur hann verið í varðveislu kvenfélags Hveragerðis.

Skautbúningnum fylgir hvorki stokkabelti né faldur en það hefur alla tíð verið fengið að láni fyrir hátíðahöldin á 17. júní. Lengi vel var það Helga Baldursdóttir sem lánaði sitt stokkabelti og fald en hún var einmitt fyrsta fjallkonan til að bera búninginn þegar hann var vígður á 17. júní árið 1963. Helga hefur haft það hlutverk um árabil að aðstoða fjallkonuna við skrýðinguna á þjóðhátíðardegi. Í seinni tíð hefur Anna Jórunn Stefánsdóttir lánað stokkabelti og fald úr sinni eigu.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar fjallkonur í búningnum glæsilega.

Fjallkona Hveragerðis 2024 var Ásta Björg Ásgeirsdóttir, kirkjuvörður. Fánaberar eru (t.v.) Sigríður Jóhannesdóttir Danner, skátaforingi og Sjöfn Ingvarsdóttir, flokksforingi og dóttir Ástu fjallkonu. Ljósmynd/Ingibjörg Zoëga
Fjallkona Hveragerðisbæjar 2023, Thelma Rún Runólfsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
Viktoría Sif Kristinsdóttir, fjallkonan í Hveragerði 2022, las upp ljóð eftir föður sinn, Kristinn G. Kristjánsson, sem heitir Ættjarðarljóð, lofgjörð til Íslands. Ljósmynd/Thelma Rós Kristinsdóttir
Eva Harðardóttir var fjallkona Hveragerðisbæjar 2021. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir
Fyrri greinValgerður tvöfaldur Íslandsmeistari í bogfimi
Næsta greinÞjónustusamningur við Selfoss körfu endurnýjaður