Vegleg gjöf frá Minningarsjóði Jennýjar Lilju

Aðstandendur Minningarsjóðs Jennýjar Lilju og fulltrúar Björgunarfélagsins Eyvindar á Flúðum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Í dag afhenti Minningarsjóður Jennýjar Lilju vettvangshópi Björgunarfélags Eyvindar á Flúðum búnað sem safnað var fyrir með áheitum í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar.

Vettvangshópurinn var fyrsti viðbragðsaðili á slysstað þegar Jenný Lilja lést af slysförum í Biskupstungum þann 24. október 2015.

Upphaflega markmiðið var að safna fyrir hjólabörum og hjartastuðtæki en áheitasöfnunin fór fram úr björtustu vonum Minningarsjóðsins og beið Eyvindar því það verkefni að bæta við óskalistann. Alls söfnuðust rúmlega 1,7 milljónir króna.

Búnaðurinn sem var afhentur í dag var Nonin 2500 súrefnismettunarmælir, Pad500 hjartastuðtæki, Ferno Rescue Tirol Titanium sundurtakanlegar börur, Ferno Tirol Titanium hjól með bremsu og ljósi, fjórtán Braun Pulsoximeter 1 súrefnismettunarmælar, þrjú Pax vakúmspelkusett í tösku og þrjár vakúmdælur fyrir spelkur.

Björgunarfélagið Eyvindur á Flúðum hefur síðan um mitt ár 2011 verið með starfandi vettvangshjálparhóp. Tilgangur hópsins er að bregðast við alvarlegum veikindum eða slysum í uppsveitum Árnessýslu í samstarfi við sjúkraflutninga HSU á Selfossi og lögregluna í Árnessýslu.

Fyrri greinSelfoss Íslandsmeistari í futsal kvenna
Næsta greinEngin ný tilfelli greinst