Vélvirkjadeild Fjölbrautaskóla Suðurlands barst á dögunum sérlega glæsileg gjöf frá fyrirtækjunum Össuri og Formula 1.
Um er að ræða öxla úr áli, stáli og plasti sem nýtast við kennslu í rennismíði og CNC kennslu. Einnig fengust að gjöf stálhaldari og renniplatti fyrir rennibekki, fræsitennur, miðjuborar og fleira.
Að sögn Borgþórs Helgasonar, fagstjóra málmiðngreina í FSu, er þessi gjöf gríðarlegur stuðningur fyrir vélvirkjadeild skólans en um er að ræða öxla og verkfæri í hæsta gæðaflokki.
Össur hefur áður lagt vélvirkjadeildinni lið því á síðustu vorönn var títaníum rennt í fyrsta skipti í skólanum. Títaníum er mög dýrt efni og fékkst öxulbúturinn að gjöf frá Össuri. Títaníum er notað við smíði á gerviliðum í fólk en hjá Össuri starfa vélvirkjar og rennismiðir við smíði stoðtækja á sambærilegar vélar og eru í FSu.