Veglegar sektargreiðslur fyrir hraðakstur

Lögreglan að störfum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Lögreglan kærði nítján ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi.

Hraðast ók karlmaður á nítjánda ári á Eyrarbakkavegi, en hann var á 134 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Sekt við broti sem þessu nemur 120 þúsundum króna og tveimur punktum í ökuferilsskrá.

Þrír þeirra sem kærðir voru, voru á ferðinni á Suðurlandsvegi við Þingborg í Flóa en þar er 70 km/klst hámarkshraði. Einn þeirra mældist á 122 km/klst hraða og situr uppi með 110 þúsund króna sekt og þrjá punkta í ökuferilsskrá.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að tveir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna. Annar þeirra var sviptur ökurétti til bráðabirgða en hann á fyrir sambærileg ólokin mál í vinnslu.

Fyrri greinHáspennuleikur á Flúðum
Næsta greinBjörgvin sækist eftir 3. sæti