Veglegur styrkur eftir styrktaræfingu í CrossFit Selfoss

Um 70 manns tóku þátt í styrktaræfingu CrossFit Selfoss sl. laugardag. Ljósmynd/Aðsend

Síðastliðinn laugardag hélt CrossFit Selfoss styrktaræfing til styrktar Krabbameinsfélagi Árnessýslu.

Fyrir æfinguna gafst fólki einnig kostur á að kaupa boli með áletruninni „CrossFit gegn krabbameini“. Bolurinn gilti sem aðgöngumiði á styrktaræfinguna en einnig gat fólk keypt bol án þess að mæta á æfinguna. Alls söfnuðust 319.500 kr.

120 bolir seldir
Sigrún Arna Brynjarsdóttir, yfirþjálfari og stöðvarstjóri í CrossFit Selfossi, segir í samtali við sunnlenska.is að salan á bolunum hafi gengið frábærlega og séu þau búin að selja um 120 boli.

„Ég bjó í Noregi í sex ár og átti og rak þar CrossFit stöð. Í Noregi var búið að starta svona verkefni og þar sem þetta málefni stendur mér ansi nærri langaði mig til þess að gera þetta hér heima líka.“

Gríðarlega góð stemning var á styrktaræfingunni. Ljósmynd/Aðsend

Um 70 manns tóku þátt
Sigrún Arna segir að þeim hafi fundist góð hugmynd af hafa styrktaræfingu í bleikum október.

„Við vorum með liðaæfingu, þrjú saman í liði og það mættu um 70 manns og tóku æfinguna saman. Fjörutíu og fimm af þeim sem mættu á æfinguna er fólk sem æfir hjá okkur CrossFit en svo var restin fólk sem æfir annars staðar en vildi taka þátt í þessu með okkur – sem er yndislegt. Enda var þetta alls ekki hugsað bara fyrir okkar iðkendur, hreyfing er forvörn gegn krabbameini og því vel við hæfi að hittast og hreyfa sig í nafni góðs málefnis.“

Árlegur viðburður
Sigrún Arna segir að þau hafi ekki verið með neitt ákveðið markmið hvað varðar söfnunina. „Í raun var markmiðið bara að safna sem mestu. Á næsta ári ætlum við að reyna finna fyrirtæki sem er til í að taka þátt í þessu með okkur, mögulega í formi þess að borga kostnað við bolina. Þá getum við gefið enn stærri upphæð.“

Strákarnir hjá Brunavörnum Árnessýslu tóku þátt í æfingunni í fullum skrúða. Ljósmynd/Aðsend

„Mig langar að þakka öllum þeim sem tóku þátt á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir til Brunavarna Árnessýslu en strákarnir þar mættu og tóku æfinguna með okkur í fullum búnaði. Það var hægt að heita á þá og leggja inn á málstaðinn. Þeir gáfu öllum bleik buff og endurskinsmerki í staðinn. Það voru góðar undirtektir og margir sem lögðu inn á reikninginn. Við vonumst til að sjá enn fleiri með á næsta ári, það var einróma ákvörðun um að þetta yrði árlegt,“ segir Sigrún Arna að lokum.

Fyrri greinRán leiðir lista Sósíalista í Suðurkjördæmi