Eftir samráð við sérfræðinga Veðurstofu Íslands, Vegagerðina og almannavarnir hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi tekið ákvörðun um að aflétta öllum vegalokunum vegna yfirstandandi hlaups í Skaftá.
Um var að ræða F-208 frá Landmannalaugum inn á Fjallabak nyrðra ásamt Skaftártunguvegi frá Búlandi, Álftavatnskrókinn á vegi F-210 inná F-233 og vestan við vað yfir Hólmsá á gatnamótum F-210 og F-232.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að vísbendingar séu um að hlaupið hafi náð hámarki og tekið að draga úr rennsli. Engu að síður má búast við vatnavöxtum, ekki síst í ljósi úrkomuspár á svæðinu næstu daga. Því geta ár og lækir flætt yfir bakka sína og vegir farið undir vatn.
Enn er hætta á gasmengun við Skaftá og því er varað við að dvelja nálægt bökkum hennar að óþörfu.