Vegtengingar inn á Biskupstungnabraut á milli Sogsbrúar og Brúarárbrúar eru nú rúmlega 70.
Ef fyrirætlanir Grímsnes- og Grafningshrepps ná fram að ganga mun þeim fækka um 30 segir Gunnar Þorgeirsson, oddviti sveitarfélagsins. Telur hann mögulegt að fjármagna verkið með peningum úr sjóði sem ætlað er að auka umferðaröryggi en samkvæmt tölfræði Vegagerðarinnar er Biskupstungnabraut í nágrenni Kersins sá hluti vegakerfisins á Suðurlandi í dreifbýli sem hefur hæsta slysatíðni.
Grímsnes- og Grafningshreppur lét Pétur H. Jónsson, arkitekt, vinna úttekt fyrir sig þar sem gerðar eru tillögur um vegbætur vegna öryggis vegfarenda, stefnumörkunar og framtíðarsýnar á Biskupstungabraut milli brúa. Beðið er umsagnar Vegagerðarinnar um tillögurnar.