Vegum lokað vegna Skaftárhlaups

Skaftárhlaup 2021. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Búist er við að vatn flæði yfir vegi í nálægð við væntanlegt Skaftárhlaup og hefur verið ákveðið að loka leiðum að svæðinu frá og með kl 19:00 í dag.

Þetta á við um Skaftártunguveg nr. 208 frá Búlandi og inn á Fjallabaksleið nyrðri, F-208. Einnig verður lokað inn á Álftavatnskrókinn á vegi F-210 inná F-233 og lokað verður vestan við vað yfir Hólmsá við gatnamót F-210 og F-232.

Send hafa verið út SMS skilaboð til fólks á svæðinu og eru ferðamenn beðnir um yfirgefa svæðið. Fólk sem er vestan Hólaskjóls er beðið að rýma í átt að Landmannalaugum.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli og er styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi.

Búast má við að hlaupið nái hámarki við þjóðveginn á miðvikudaginn. Komi til þess að Þjóðvegur 1 lokist vegna vatnavaxta þá er hjáleið um Meðallandið.

Fyrri greinFjöldatakmarkanir rýmkaðar í réttum
Næsta greinFyrstu réttir um næstu helgi