Vegurinn inn í Þórsmörk er horfinn að hluta. Mikill grjótburður og leðja eru í vegstæðinu en Vegagerðin er að hefja viðgerð.
Mjög hefur sjatnað í ánum en Krossá og Steinholtsá hafa báðar verið ófærar frá því í gær. Yfir 120 ferðalangar gistu í Þórsmörk í nótt þar sem þeir komust ekki til síns heima.
Svo mikið var í Krossá í gær að hún var farin að flæða fyrir endann á Merkurrananum og mynda lón sem teygði sig áleiðis að húsunum í Húsadal.
Klemenz Klemenszon, skálavörður, segir að Vegagerðin sé að senda vinnuvélar inn í Þórsmörk til þess að ryðja veginn.
Enginn fari af stað nema það sé óhætt að keyra þessa leið en Klemenz á ekki von á því að leiðin verði fyllilega fær að nýju fyrr en í kvöld.