Veiði fer hægt af stað í Rangánum en Ytri-Rangá er komin í 151 lax og Eystri-Rangá í 112 laxa. Veiðin er að glæðast eftir lélega daga í vikubyrjun.
Eystri Rangá er að ná sér aftur eftir að hafa verið lituð fyrripart vikunnar. Áin hefur verið að gefa lítið af laxi á meðan, ein eins og vanir menn vita er hún illveiðileg í þessum skilyrðum. Eftir að hún hreinsaðist komu níu laxar á land á morgunvaktinni í gær, en svæði eitt og fjögur voru sterkust.
Á vef leigutakans kemur fram að fiskur sé um alla á og öll svæði voru að gefa áður en hún litaðist. Austanátt hefur gert veiðimönnum erfitt fyrir svo það er góður gangur miðað við aðstæður.
Í Ytri-Rangá komu fjórtán laxar á land á þriðjudag þrátt fyrir sterka austanátt. Veðrið skánnaði ekki í gær og á tímabili var ekki hægt að kasta flugu og neðri veiðisvæðin óveiðanleg.
Af öðrum ám sunnanlands á lista Landssambands veiðifélaga má sjá að Brennan í Hvítá hefur gefið 140 laxa.