Veiði í Veiðivötnum gekk nokkuð vel í síðustu viku þrátt fyrir dumbung og vætutíð. Alls komu 1.652 fiskar á land í vikunni, 743 urriðar og 909 bleikjur.
Mest veiddist í bleikjuvötnunum Nýjavatni og Langavatni. Urriðaveiði var langmest í Litlasjó en einnig veiddist vel í Hraunvötnum og í Ónýtavatni.
Í vikunni kom 14,0 punda urriði á land úr Grænavatni. Það er stærsti fiskur sumarsins það sem af er. Fleiri stórir, 8-12 pund komu á land í Grænavatni í vikunni og þar er meðalþyngdin hæst 5,43 pund.
Alls eru þá komnir 10.193 fiskar á land í Veiðivötnum á þessu sumri og veiðitíminn ekki hálfnaður.