Veiðisafnið alltaf feykivinsælt

Páll Reynisson, safnstjóri. Ljósmynd/Veiðisafnið

Veiðisafnið á Stokkseyri hefur notið mikilla vinsælda hjá Íslendingum síðan það var stofnað árið 2003.

„Veiðisafnið er sérsafn tengt skotveiðum og er stærsta safn sinnar tegundar á Íslandi og er einstakt á landsvísu en hvergi er hægt að sjá jafn fjölbreytt úrval uppstoppaðra veiðidýra, skotvopna og veiðitengdra muna en hér ásamt því að fræðast um veiðidýr, skotvopn, veiðar og náttúruvernd,“ segir Páll Reynisson, stofnandi safnsins, í samtali við sunnlenska.is.

„Ljón og sebrahestar, gíraffi, hreindýr, apar, selir, bjarndýr og sauðnaut eru hér ásamt fjölda annarra dýra en uppistaða safnsins eru veiðitengdir munir, skotvopn og uppstoppuð veiðidýr. Jafnframt eru hér til sýnis munir frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem Veiðisafnið hefur til sýningar samkvæmt sérstökum samningi,“ segir Páll.

Ljósmynd/Veiðisafnið

Páll segir að hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að opna safnið á sínum tíma. „Ef þú lendir í því að yfir þúsund manns koma í gegnum eldhúsið heima hjá þér á sex mánuðum, þá þarf að gera eitthvað. En það gerðist hér og Veiðisafnið var stofnað og alþjóð boðið inn á gafl. Einnig kom til mikill áhugi minn á skotveiðum, veiðihefð og veiðirétti sem og náttúruvernd,“ segir Páll en Veiðisafnið á Stokkseyri var opnað formlega 8. maí 2004.

„Allt frá upphafi hafa viðtökurnar verið mjög góðar og er safnið feykivinsælt hjá safngestum og er endurkomuhlutfall gesta mjög hátt sem segir allt um viðtökurnar.“

Ljósmynd/Veiðisafnið

Páll segir að flestir gestir safnsins séu innlendir. „Íslenskar fjölskyldur eru  stærsti hópurinn sem heimsækir safnið. Einnig kemur mikið af stórum og litum hópum, veiðiklúbbum, félög, jafnt og einstaklingar sem eiga leið hjá á auglýstum opnunartíma, eða vilja panta einkaheimsóknir, þar sem safnaleiðsögn er ítarlegri og tímasetningar ákveðnar fyrirfram. Erlendir ferðamenn eru hér í lágmarki og hafa verið alla tíð.“

„Sumarið leggst vel í okkur hér á Veiðisafninu og er fyrsti ársfjórðungur að koma mjög vel út,“ segir Páll glaður að lokum.

Veiðisafnið er opið alla daga frá kl. 11:00-18:00. Á heimasíðu safnsins www.veidisafnid.is má einnig finna upplýsingar um Drífuvinafélagið sem stofnað var 12. mars 2005 ásamt ýmsu um safnið, m.a. íslenska byssusmíði og veiðimenn.

Ljósmynd/Veiðisafnið
Fyrri greinMetþátttaka í Hengilshlaupinu um helgina
Næsta greinFjórar sýningar opna í Listasafninu