Veiðisumarið hafið í Ölfusá

Agnar Pétursson, Guðmundur Jensson formaður og Grímur Hergeirsson, stjórnarmenn í SVFS ásamt Tómasi Ellert. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikill hugur í mönnum á bökkum Ölfusár í morgun en þá opnuðu stjórn Stangaveiðifélags Selfoss og gestir hennar formlega stangveiði í Ölfusá þetta sumarið.

Þegar sunnlenska.is leit við í Víkinni kl. 8:30 í morgun höfðu veiðimenn mundað stangirnar í einn og hálfan tíma án þess að ná laxi á land, en einn lítill sjóbirtingur hafði veiðst á miðsvæðinu. Áin er nokkuð lituð þessa dagana og „ekki veiðileg“ sögðu reynsluboltar við blaðamann. Menn voru þó bjartsýnir á gott veiðisumar framundan.

Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Sveitarfélagsins Árborgar, var einn gestanna sem opnuðu ánna í morgun. „Það er gaman að fá að taka þátt í opnuninni, þetta svæði er algjör paradís og frábært að geta stundað stangaveiði, sem er frábær útivist, hér í hjarta bæjarins,“ sagði Ellert sem er vanari því að renna fyrir sjóbirting í Kaldaðarnesi, en beið spenntur eftir fyrsta Ölfusárlaxinum sínum.

Um leið og Ölfusá var opnuð tók SVFS í notkun nýtt og glæsilegt veiðihús í Víkinni sem félagar hafa byggt á undanförnum árum. Húsið er ekki fullbúið en þar er komin kaffi- og salernisaðstaða.

Tómas Ellert Tómasson mundar stöngina í Víkinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Á miðsvæðinu voru Valdimar Karlsson og Gunnar Egilsson við veiðar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBjarki Rúnar raðar inn mörkunum
Næsta greinLið Byko sigraði í Suðurlandsdeildinni