Ytri-Rangá er aflahæsta laxveiðiá landsins í sumar en í gær kom þar lax númer 4.000 á land.
Veiðimaðurinn lagni var Gestur Antonsson, stórveiðimaður frá Ólafsfirði, sem landaði fallegri 60 cm hrygnu á Stallsmýrarfljóti um miðjan dag í gær. Gestur þekkir ána vel og hefur veitt þar á hverju sumri til margra ára.
Af þessu tilefni slógu Ari Árnason, framkvæmdastjóri og veiðivörður við Ytri-Rangá og eiginkona hans, Anna María Kristjánsdóttir, upp veislu í veiðihúsinu en Anna María hefur komið á þeirri hefð að fagna þúsundustu löxunum með pönnukökum og öðru kruðeríi.
Veiðitímabilinu í Ytri-Rangá lýkur þann 20. október og enn er mikið af fiski í ánni að sögn Ara. Þar veiddust samtals 53 laxar í gær og dreifðist veiðin vel um alla á.