Vel á aðra milljón í umhverfisstyrki á Suðurlandi

Landsbankinn veitt nú í júní fimm milljónum króna í umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans. Fjórir styrkir fóru til verkefna sem sérstaklega verða unnin á Suðurlandi.

Áhugamannafélagið Pílagrímar fékk 500 þúsund króna styrk til að stika leiðina frá Bæ til Skálholts að gömlum sið. Sömu upphæð fengu Vinir Þórsmerkur til að viðhalda gönguleiðum á brattlendi í Þórsmörk og Goðalandi, vernda með því gróður og koma í veg fyrir jarðvegsskemmdir.

Landgræðslufélag Skaftárhrepps 250 þúsund krónur til uppgræðslu í byggðum Skaftárhrepps í þeim tilgangi að draga úr öskufoki og auka með því lífsgæði fólks, efla gróðurfar og umferðaröryggi í hreppnum.

Ragnhildur Sigurðardóttir á Stokkseyrarseli í Flóa fékk einnig 250 þúsund króna styrk til að vinna að verkefni í þeim tilgangi að endurheimta votlendi á Stokkseyrarseli.

Umhverfisstyrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Þessir styrkir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð.

Í dómnefnd sátu dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í Umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.

Fyrri greinÞórir mætir með norska liðið á Selfoss
Næsta greinTöluvert af fölsuðum skilríkjum í umferð