Vegagerðin hefur fylgst grannt með gangi mála við Grímsvötn undanfarið. Eins og staðan er nú er ekki talið líklegt að jökulhlaup hafi áhrif á samgöngur og loka þurfi vegi en fylgst verður vel með næstu daga.
Vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans hafa metið líklegt hámarksrennsli í Gígjukvísl um 4.000 m3/sek og að engar líkur séu á að jökulhlaupið nái í eldri farveg Skeiðarár.
Töluverð óvissa er varðandi áhrif jökulhlaupsins á farveg Gígju en jarðvegur á svæðinu er frekar fínn, einskorna og því lítil fyrirstaða í honum. Búast má við skemmdum á rofvörnum og rof á bökkum. Stærsta hlaupið sem reynt hefur á núverandi brú og varnargarða við Gígjukvísl til þessa er árið 2010 en stærð þess hlaups hefur verið metið sem um 3.000 m3/sek hámarksrennsli.
Gert er ráð fyrir að hlaupið nái hámarki um eða eftir helgina og helsta óvissan að mati vísindamanna er hvort að gos í Grímsvötnum fylgi í kjölfar jökulhlaupsins.
Frá þessu er greint í frétt á vef Vegagerðarinnar.