Á fjórða tímanum í nótt urðu nokkrir jarðskjálftar í Mýrdalsjökli, sá stærsti 3,1 að stærð klukkan 3:45. Rétt fyrir hádegi í dag byrjaði svo að skjálfa aftur og klukkan 11:53 varð skjálfti að stærðinni 3,4.
Upptök skjálftanna eru á 100-200 m dýpi í miðri Kötluöskjunni.
„Það er búið að vera meiri skjálftavirkni í Mýrdalsjökli en venjulega, en það er líka búið að vera mun hlýrra heldur en hefur verið. Við fylgjumst vel með hver þróunin verður,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.