Vel heppnað heilsudjamm

„Flotið gekk svo sannarlega vel og hugmyndin um annars konar djamm eða heilsudjamm seint á laugardagskvöldi gekk upp,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir hjá heilsuhofinu Systrasamlaginu.

Guðrún og systir hennar Jóhanna, ásamt Float stóðu fyrir miðnætursamfloti í Gömlu lauginni, náttúrulauginni við Garð í Hrunamannahreppi, síðastliðið laugardagskvöld.

Að sögn Guðrúnar voru viðtökurnar við samflotinu gífurlega góðar. „Það mættu rúmlega fimmtíu manns sem eru mun fleiri en við bjuggust við og færri komust að en vildu. Það er svo mikilvægt að það fari vel um alla,“ segir Guðrún og bætir því við að líkamarnir verði plássfrekir þegar þeir fljóta.

„Það var uppselt en þannig þó að allir fengu sitt pláss í lauginni. Þarna voru samankomnir vanir flotarar í bland við nýja sem voru að prófa í fyrsta sinn,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að stefnan sé að endurtaka leikinn áður en langt um líður. „Við stefnum að sjálfsögðu á meira svona en erum að skoða fleiri staði til að fljóta á. En Gamla laugin á Flúðum er enn sem komið er besta flotlaugin og sú notalegasta,“ segir Guðrún að lokum.

Fyrri greinÖkumenn gætu lent í vandræðum
Næsta greinBjörguðu Bangsa úr sprungu