Skóladagur Árborgar var haldinn 30. mars síðastliðinn undir yfirskriftinni Vellíðan okkar allra.
Það eru tvö ár síðan síðast tókst að halda sambærilegan dag og því einstaklega ánægjulegt að koma saman á þessum tímapunkti. Sunnulækjarskóli hýsti viðburðinn sem einkenndist af fagmennsku, fjölbreytni og gleði. Á skóladeginum sinna starfsmenn endurmenntun og að þessu sinni var deginum skipt upp í aðalfyrirlestra og vinnustofur. Þarna komu saman tæplega 400 starfsmenn grunnskóla og frístundastarfs í Árborg.
Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri fjölskyldusviðs setti skóladaginn og Margrét Björk Brynhildardóttir deildarstjóri skólaþjónustu, tók síðan við keflinu og stýrði dagskránni. Fyrsti fyrirlestur dagsins var í höndum Ásthildar Garðarsdóttur en hann fjallaði um að ná tökum á streitunni. Að hennar fyrirlestri loknum hófust vinnustofur þar sem hver starfsmaður gat valið á milli tveggja vinnustofa. Um var að ræða fjölbreyttar vinnustofur þar sem meðal annars var hægt að læra hvað felst í núvitund, kynnast jóga, fá fræðslu um handleiðslu og kynningu frá stéttarfélögum varðandi réttindi og styrki. Einnig var hægt að fá kynningu á fjölbreyttum spilum frá Spilavinum, fræðslu um hópefli og fyrirlestur um unga og gamla stráka í skólastarfi. Þá var í boði að hlusta á fyrirlestur um vegferð að vellíðan og velgengni þar sem áhersla var lögð á hvernig megi öðlast aukna hamingju, tilgang, sigra og sátt í lífi, leik og starfi.
Að loknum dásamlegum hádegisverði frá Menam fékk starfsfólk kynningu frá Kristínu Björk Jóhannsdóttur verkefnastjóra farsældarteymis Árborgar um innleiðingu farsældarlaganna og stöðuna í dag. Magnús Guðmundsson stýrði síðan skemmtilegri spurningakeppni áður en Bjartur Guðmundsson sló botninn í vel heppnaðan skóladag með fyrirlestri um hvernig við getum verið óstöðvandi í topp tilfinningalegu ástandi. Birgir Edwald fráfarandi skólastjóri Sunnulækjarskóla sleit vel heppnuðum skóladegi.
Það er samdóma álit þátttakenda að dagurinn hafi heppnast vel og sé gott veganesti inn í það krefjandi starf sem starfsfólk grunnskóla og frístundar sinnir.