Um tvöhundrið gestir mættu á hátíð í tilefni 250 ára afmælis Hússins á Eyrarbakka, sem haldin var á dögunum. Svo margir, að færa þurfti hátíðina úr Húsinu sjálfu.
„Þegar ég tók eftir því að fólk stóð orðið í hverju skoti og undir hverri súð, tók ég ákvörðun um að færa dagskrána inn í Eyrarbakkakirkju,“ sagði Lýður Pálsson, safnstjóri í samtali við Sunnlenska.
Hann kvaðst ánægður með gestafjöldann, hafði mögulega gert ráð fyrir um hundrað manns, eins og hann orðaði það. „Það fengu allir kaffiveitingar á eftir,“ bætti hann við ánægður.
Hann sagði marga langt að komna, ekki síst þá sem höfðu einhverja tengingu við Húsið, afkomendur gamalla faktora og kaupmanna, sem í Húsinu voru.
„Það er gaman að hitta þetta fólk, þetta er fólk sem kemur oft á safnið og er annt um þessa gömlu miðstöð Suðurlands,“ bætti Lýður við.