Vel mætt á vígsluhátíð Flúðaorku

Oddvitar Hrunamannahrepps síðustu áratugina. (F.v.) Halldóra Hjörleifsdóttir oddviti, Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Loftur Þorsteinsson fv. oddviti í Haukholtum. Ljósmynd/RSR

Vel á annað hundrað manns mætti á vígsluhátíð Flúðaorku á sumardaginn fyrsta en þá var varmaorkuverið Kópsvatnsvirkjun tekið í notkun en virkjunin nýtir lágvarma til raforkuframleiðslu.

Líklega þyrfti að sækja um styrk vegna bílastæða fyrir fjölfarna ferðamannastaði á Kópsvatni en staðurinn er þegar orðinn áningastaður forvitinna ferðamanna. Við opnunina var hins vegar fjöldi heimamanna sem naut þess að læra um tæknilega útfærslu og getu virkjunarinnar.

Efnt var til samkeppni um bestu tillögu að nýtingu á raforkunni og bárust tugir hugmynda um nýsköpun í atvinnulífi í sveitarfélaginu. Dómnefnd mun fara yfir tillögurnar og skila niðurstöðum sínum þann 1. maí næstkomandi.

Verkefnið hófst fyrir rúmlega ári síðan og er orkuverið nú komið í stöðuga framleiðslu. Það hefur vakið mikla athygli en meðal annars hafa nemendur úr Menntaskólanum að Laugarvatni unnið að verkefni sem tengist inná þekkingarsvið orkuversins og hópur ráðamanna frá Indónesíu heimsótti einnig virkjunina nýverið. Ekki er ólíklegt að slíkar heimsóknir verði fleiri en fjölmargar fyrirspurnir hafa borist um virkjunina erlendis frá.

Einnig hafa stjórnir veitna og sveitarstjórnarfólk á Íslandi komið og kynnt sér hvaða tækifæri þessi nýja tækni gefur og er uppbygging að hefjast á tveimur nýjum stöðum á landinu síðla sumars.

Vel var mætt á opnunarhátíð Flúðaorku. Ljósmynd/RSR
Aðalsteinn Þorgeirsson á Hrafnkelsstöðum, Hannibal Kjartansson, veitustjóri og Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti. Ljósmynd/RSR
Kópsvatnsvirkjun nýtir lágvarma til raforkuframleiðslu. Ljósmynd/RSR
Fyrri greinHamar komst ekki í úrslitaleikinn
Næsta greinHellutorfæran um næstu helgi