Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út um kl. 22:30 í kvöld til að sækja tvo menn á vélarvana báti á Þingvallavatni.
Mennirnir höfðu lagt út á vatnið í kvöld en um kl. 22 höfðu þeir samband við aðstandanda og tilkynntu um að báturinn væri vélarvana.
Um fimmtán mínútum síðar náðist ekki í mennina í síma og því voru björgunarsveitir kallaðar út. Skömmu síðar náðist aftur samband við mennina sem staðfestu að þeir væru vélarvana og ættu erfitt með að komast í land. Þeir töldu sig vera um hálfan kílómeter frá landi nálægt Miðfelli og voru ekki í neinni hættu.
Björgunarsveitarmenn frá Árborg, Laugarvatni og Grímsnesi voru kallaðir út til leitarinnar.