Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út um níuleytið í morgun eftir að tilkynning barst um að togara ræki að landi við Dyrhólaey. Björgunarsveitin Víkverji er einnig farinn af stað sem og lögreglan á Hvolsvelli.
Vísir greinir frá því að um sé að ræða frystiskipið Gnúp með 27 manna áhöfn.
Engin hætta er á ferðum þar sem áhöfn skipsins hefur varpað akkeri og veður er gott á svæðinu, samkvæmt skipstjóra Gnúps.
Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni er áætlað að togarinn Bergey frá Vestmannaeyjum komi að Gnúp um klukkan 10:30 og taki skipið í tog.
UPPFÆRT KL. 11:37: Áhöfn Gnúps tókst fyrir stuttu að koma vél skipsins í gang og siglir hann nú fyrir eigin vélarafli. Útkall björgunarsveita hefur því verið afturkallað.