Aðalsteinn Sveinsson, oddviti Flóahrepps, segir að það haldi áfram að valda hreppnum tjóni að fá ekki aðalskipulag sitt staðfest.
„Það er erfitt að átta sig á því hvað er ekki nógu skýrt í lögunum eins og umhverfisráðherra vísar til. Nú er búið að samþykkja ný skipulagslög þar sem leyft er að aðilar máls taki þátt í kostnaði við skipulag. Ég átta mig ekki á því hvað ráðherra hyggst ná fram með þessu,“ sagði Aðalsteinn þegar hann var spurður um þá ákvörðun umhverfisráðerra að áfrýja dómi um aðalskipulag hreppsins.
Í desember næstkomandi verða liðin tvö ár síðan Flóahreppur staðfesti skipulagið en umhverfisráðherra hefur neitað að undirrita það.