Það hefur ekki farið framhjá vegfarendum á Suðurlandsvegi að nú standa yfir framkvæmdir í vegkantinum fyrir neðan Bolaöldur í Ölfusi.
Þar er Sveitarfélagið Ölfus að reisa veglegt merki sem mun marka landamörkin milli Ölfuss og Kópavogs, og bjóða fólk velkomið í Ölfusið.
„Sveitarfélagið Ölfus er víðáttumikið og býr yfir ótrúlegum náttúrugæðum. Fólk er komið inn í Ölfusið áður en það kemur að Litlu kaffistofunni og fer ekki út úr því fyrr en það kemur að bílasölunum á Selfossi. Síðan nær það inn að Sogsbrú við Þrastarlund og út fyrir Herdísarvík, langleiðina til Grindavíkur. Hugmyndin hjá okkur er að merkja í það minnsta fjölförnustu leiðirnar og bjóða fólk þannig velkomið inn í þetta magnaða sveitarfélag,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í samtali við sunnlenska.is.