Í dag vígðu íbúar í Sandvíkurhreppi hjólreiðastíginn á milli Selfoss og Stóru-Sandvíkur við hátíðlega athöfn.
Stígurinn var malbikaður í dag og var flaggað á bæjum í hreppnum í tilefni dagsins. Stígurinn var lagður árið 2018 en þá svo torfær að varla hefur verið hægt að nota hann. Malbikaður hjólastígur hefur verið kosningaloforð meira og minna síðan Sandvíkurhreppur varð hluti að Árborg árið 1998 og íbúar í hreppnum voru því orðnir ansi óþreyjufullir á biðinni.
Sigríður Kristín Jóhannsdóttir í Stóru-Sandvík klippti á borða á stígnum við Strokkhól og vígði stíginn þar með formlega. Sigríður hefur hjólað til vinnu á Selfossi í yfir tuttugu ár.
„Það breytir mjög miklu að það sé búið að malbika stíginn. Það verður auðveldara og fljótfarnara að hjóla upp á Selfoss. Það munar líka um að getað notað stíginn fram og til baka í myrkri og að umferðin er til hliðar en hún er svo hættuleg við Eyrarbakkaveg. Það er bara nauðsynlegt að hafa svona stíg,“ segir Sigríður í samtali við sunnlenska.is.
Sigríður segir tilfinninguna að hjólreiðarstígurinn sé loksins orðinn að veruleika vera ólýsanlega. „Það er bara vellíðan alveg heilt í gegn og bara þakklæti til allra sem að stóðu að því að þetta varð að veruleika.“
Sigríður segist vona að allir íbúar sveitarfélagsins eigi eftir að njóta hjólreiðastígsins því hann sé mjög góður. „Ég vona að fólk eigi eftir að nota stíginn til útivistar, ekki endilega vinnutengt. Hreyfa sig og njóta. Hreyfa sig til heilsu, það er það sem skiptir máli,“ segir Sigríður að lokum.
Til stendur að leggja stíg alla leið niður á Eyrarbakka með tíð og tíma og tengja þannig kjarnana sem mynda Árborg. Nú þegar er kominn malbikaður stígur milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.