Þrjátíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Í fimm þeirra urðu slys á fólki en þó ekki alvarleg.
Síðastliðinn þriðjudag varð árekstur á Suðurlandsvegi skammt vestan Kúðafljóts. Þar hugðist ökumaður reyna framúrakstur en rak bíl sinn í horn bifreiðarinnar sem hann hugðist aka fram úr og lenti út af og valt. Farþegi í bíl hans kenndi eymsla í öxl en aðrir sluppu ómeiddir.
Sama dag valt bifreið á Suðurlandsvegi við Mókeldu í Flóahreppi. Ökumaður og farþegi hlutu minniháttar meiðsli í veltunni. Bifreiðin reyndist ótryggð og eins var um þrjár aðrar sem fundust í eftirlitsferðum lögreglu um umdæmið í vikunni. Skráningarnúmer þessara bifreiða voru fjarlægð.