Tvenn verðlaun fóru í Lava eldfjallamiðstöðina á Hvolsvelli og ein í Raufarhólshelli, þegar Íslensku lýsingarverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Gamla NÝLÓ á KEX í Reykjavík í gær.
Ljóstæknifélag Íslands stendur fyrir verðlaununum en veitt eru verðlaun í fjórum flokkum og fóru þrjú þeirra á Suðurland.
Í flokknum lýsingarverkefni utanhúss var Raufarhólshellir verðlaunaður en um hönnunina sá EFLA verkfræðistofa, Ágúst Gunnlaugsson.
Hellirinn er einstaklega stórfenglegur, vítt til veggja og hátt til lofts. Hann er ríkulega skreyttur litum sem hafa komið enn betur í ljós með vandaðri og rétt stilltri lýsingu. Að mati dómnefndar eru lampastaðsetningar vandlega valdar, vel úthugsuð ljósastýring og lýsingarhönnun sem skilur samspil ljóss og myrkurs magna þessa draumaveröld í iðrum jarðar og minnir okkur á að náttúran er hinn mikli meistari.
Stórkostlegt verk á Hvolsvelli
Í flokknum lýsingarverkefni innanhúss var sýningarhluti Lava eldfjallamiðstöðvarinnar á Hvolsvelli verðlaunaður. Um lýsingarhönnun sáu Liska, Gagarín og Basalt en arkitektar og sýningarhönnun var í höndum Basalt arkitekta og Gagarín. Að mati dómnefndar er hér á ferðinni einstakt verkefni fyrir margar sakir. Mikið er í verkefnið lagt tæknilega og hönnunarlega og engu til sparað. Hér er lýsandi dæmi um það hvernig þverfagleg samvinna arkitekta, lýsingarhönnuða og sérfræðinga í margmiðlun og annarra fagaðila getur skilað stórkostlegu verki.
Í flokknum lampar og ljósabúnaður var Eldfjallaljós í Lava eldfjallamiðstöðinni á Hvolsvelli verðlaunað. Hönnuður er Marcos Zotes, Basalt arkitektar.
Eldfjallaljósið er hannað út frá raunverulegum landfræðilegum mælingum hæðarlína í íslensku landslagi. Lampinn er lýsandi skúlptúr staðsettur yfir móttöku í aðkomusal miðstöðvarinnar sem er 5 m hátt rými. Formið er flókið en fullkomlega skiljanlegt í samhengi rýmisins og myndar fallega heild. Lampinn gegnir því hlutverki sínu afar vel sem skrautmunur og áherslupunktur í sýningu sem snýst um jarðfræði Íslands og eldvirkni.
Vitundarvakning í lýsingarhönnun
Fjölda innsendra verka í keppnina hefur aldrei verið meiri og greinilegt að mikil vitundarvakning er hér á landi á lýsingarhönnun og metnaður til góðra verka sem vekur athygli innan sem utan landssteinanna.
Tvö verkefni í flokki lýsingarverkefna innanhúss og utanhúss fara í gegnum stigagjöf dómnefndar og stigahæstu verkefnin verða sent áfram sem fulltrúi Íslands í Norrænu lýsingarverðlaunin, sem afhent verða í Helsinki síðar á þessu ári. Stjórn Ljóstæknifélags Íslands mun tilkynna síðar hvaða verkefni fara út sem fulltrúi Íslands í Nordisk lyspris.