Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar 2024 á sumardaginn fyrsta í Garðyrkjuskólanum á Reykjum.
Umhverfisnefnd bæjarins horfði að þessu sinni til hringrásarhagkerfisins við valið og hlutu því tvö fyrirtæki verðlaunin að þessu sinni. Verðlaunahafar ársins eru Rósakaffi og Verahvergi.
Stella Christensen og Janus Bjarnason settu á laggirnar básaleiguna Verahvergi að Austurmörk 1 í Hveragerði fyrir notaðan fatnað og fylgihluti á síðasta ári. Þau unnu sjálf að því innrétta verslunarrýmið með útsjónarsemi og endurnýtingu að leiðarljósi og notuðu meðal annars gamalt bárujárn frá Kotstrandarkirkju og notuð loftljós frá Ríkisútvarpinu. Verahvergi er mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu til þess að stuðla að endurnýtingu og sporna við hraðtísku.
Veitinga- og kaffihúsið Rósakaffi er staðsett við Breiðumörk 3. Þar reka hjónin Guðmundur Nielsen og Jóna Sigríður Gunnarsdóttir einnig blómaverslunina Hverablóm. Rekstri veitingahússins fylgir óhjákvæmilega matarsóun og snemma sumars í fyrra prófuðu því Guðmundur og Jóna að útbúa matarpakka úr því sem hafði gengið af þann daginn og létu vita á samfélagsmiðlum. Undirtektirnar létu ekki á sér standa og varð þetta að föstum lið hjá þeim og fleiri rekstraraðilar bættust í hópinn. Nú hefur verið komið upp varanlegri aðstöðu fyrir matargjafir sem annars færu til spillis. Aðstaðan er við Verahvergi í Austurmörk hjá þeim Janusi og Stellu, þar sem hægt var að koma upp kæliskápum.
Sunnlenska.is fjallaði um frískápinn í Hveragerði í vetur og vakti fréttin mikla athygli.