„Verður gaman að fá líf aftur í Tryggvagarð“

Auður Konráðsdóttir, skipuleggjandi sumarmarkaðsins. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Það verður líf og fjör í Tryggvagarði á Selfossi í sumar en þar verður útimarkaður alla laugardaga frá 29. júní til 31. ágúst, á milli klukkan tíu og fjögur.

Rótgrónir Selfyssingar og nærsveitungar muna þá tíð þegar uppákomur og viðburðir voru haldnir með reglulegu millibili í Tryggvagarði við góðar undirtektir. Það skipti ekki máli hvort það var ball með Föroyingabandinu á 17. júní eða Emilíana Torrini að syngja með Bylgjulestinni – allir mættu í Tryggvagarð – sem hefur stundum verið kallað hjarta Selfoss – og höfðu gaman saman.

Lítið sem ekkert líf hefur verið í Tryggvagarði í fjölda ára en nú stendur til að breyta því með tilkomu útimarkaðsins í sumar.

„Þessi hugmynd kviknaði þegar fréttir bárust að það yrði ekki markaður í Mosfellsbæ þetta árið, eins og verið hefur undanfarin þrjátíu ár. Ég hef stundum farið á þann markað og það er svakalega gaman. Svona markaður setur mikinn svip á bæjarbraginn, þannig að ég fór að hugsa afhverju búum við ekki bara til svona á Selfossi?“ segir Auður Konráðsdóttir, skipuleggjandi markaðsins, í samtali við sunnlenska.is.

Handverk, blóm og grænmeti
Í byrjun maí setti Auður sig í samband við Margréti Blöndal og Ólaf Rafnar Ólafsson hjá Sveitarfélaginu Árborg, sem tóku mjög vel í hugmyndina og hefur hún verið í þróun síðan. Auður er afar þakklát fyrir þeirra hjálp og segir þau vera drifkraftinn í þessu öllu saman.

Fyrirkomulagið á markaðnum verður þannig að það verða sölubásar þar sem fólk getur komið með sínar vörur til að selja. „Það verður handverk, allskonar matur, það verða blóm og grænmeti og hitt og þetta,“ segir Auður og bætir því við að vörurnar á markaðnum séu mest frá litlum framleiðendum í kring um Selfoss.

Gera má ráð fyrir því að úrvalið af grænmeti aukist smátt og smátt eftir því sem líður á sumarið.

Hver sinn eigin yfirmaður
„Við erum þrjú hjá Árborg sem sjá um að skipuleggja markaðinn en það er í raun enginn yfirmaður. Þeir sem verða með vörur til sölu á markaðnum verða með sinn eigin bás og hver sinn eigin yfirmaður.“

„Við komum einnig til með að verða með listviðburði, það verður tónlist, dans og svona skemmtilegheit. Það verður ekkert planað á ákveðnum tíma, það kemur bara á óvart. Þannig að það er um að gera að koma sem oftast og vera sem lengst.“

„Íþróttafélagið Suðri verður með vöfflu- og kaffisölu. Þannig að það er um að gera að koma og taka þátt og styrkja þau og næla sér í grænmeti, blóm, matvörur, snyrtivörur, listmuni eða bara sýna sig og sjá aðra í leiðinni.“

Algjör paradís
Auður segir að hún sé búin að fá frábærar viðtökur við hugmyndinni, bæði frá framleiðendum sem ætla að selja sína vöru á markaðnum en líka frá fólki sem hlakkar til að koma á markaðinn.

„Ég er mjög spennt, ég hlakka svo til. Við erum með smá líf núna í garðinum, á meðan við erum að undirbúa, en ég sé það fyrir mér þegar það verður fullt af fólki og stemning, þá verður þetta geggjað. Mér sjálfri finnst Tryggvagarður vera algjör paradís. Það eru margir búnir að tala um það hvað verður gaman að fá líf aftur í Tryggvagarð,“ segir Auður að lokum.

Þeir sem hafa áhuga á að vera á markaðnum geta sent tölvupóst á sumarmarkadurselfoss@gmail.com

Facebook-viðburður markaðsins.

Fyrri greinElínborg framlengir á Selfossi
Næsta greinHamar og Árborg með endurkomusigra