Icecool, fyrirtæki Gunnars Egilssonar á Selfossi, afhenti Veðurstofunni nýlega sérútbúinn jöklabíl sem er meðal annars með sérstakan búnað til öskurannsókna.
Að sögn Gunnars er verkefnastaða Icecool trygg fram á vorið en fyrirtækið sérhæfir sig í jeppabreytingum ásamt almennum bifreiðaviðgerðum. Þá flytur fyrirtækið inn dekk og ýmsa varahluti.
Ekki er langt síðan Gunnar seldi tvo Econoline trukka á Suðurskautslandið, til þjónustufyrirtækisins ANI. Bílarnir verða staðsettir á Suðurskautslandinu og þangað fór Gunnar í desember sl. til að þjónusta bílana. Það var þriðja ferð hans á Suðurskautið.
Ferðin var í tengslum við ferð Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, til minningar um að 100 ár voru liðin frá ferð Roalds Amundsen á pólinn. Annar bíla Icecool var notaður til að flytja norska forsætisráðherrann þangað.
Gunnar segir að smíði bílanna sé nú orðið þekkt ferli og alltaf væru að berast fyrirspurnir um nýja bíla. Hann segist ekki hafa áhuga á að stækka fyrirtækið mikið en hjá því starfa þrír starfsmenn.