Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja um eitt ár tilraunaverkefni sem miðar að því að styrkja faglega geðheilbrigðisþjónustu við einstaklinga í geðrýmum á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði. Verkefnið hófst fyrir rúmu ári og hefur að mati aðstandenda þess skilað góðum árangri.
Efnt var til verkefnisins þar sem fyrir lá mat embættis landlæknis um að styrkja þyrfti faglega geðheilbrigðisþjónustu á Ási í Hveragerði og Fellsenda í Dölum, þar sem búa einstaklingar með flókna þjónustuþörf á þessu sviði.
Á Ási hefur verkefnið byggst á samstarfi við geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Teymið hefur haldið sérsniðin námskeið fyrir starfsfólk sem sinnir notendum í geðrýmum og einnig veitt starfsfólkinu handleiðslu. Enn fremur hafa heimilismenn í geðrýmum Áss notið þjónustu og stuðnings iðjuþjálfa með það markmið að auka virkni og þátttöku þeirra í samfélaginu.
Alls verður 15 milljónum króna varið til þessa verkefnis á næsta ári en samtals eru 66 geðhjúkunarrými á Fellsenda og Ási. Stefnt er að því að þróa það enn frekar, m.a. með fjölbreyttari fræðslu fyrir starfsfólk, s.s. námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð og fleiri viðfangsefnum.