Verkefnið er ekki óyfirstíganlegt

Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarstjórn Árborgar hefur boðað til opins íbúafundar á Hótel Selfossi í dag vegna fjármálastöðu sveitarfélagsins og aðgerða henni tengdri.

Fundurinn stendur frá kl. 17 til 18:30 og verður honum einnig streymt á vefsíðu Árborgar.

Að sögn Fjólu St. Kristinsdóttur, bæjarstjóra, sem mun opna og stýra fundinum, er fundurinn fyrst og fremst upplýsingafundur fyrir íbúa.

Sveitarfélagið hefur undanfarna mánuði unnið með KPMG að árangursstjórnun í fjármálum og mun fulltrúi KPMG fara yfir þá vinnu og stöðu mála á fundinum og hvað þarf að gera til að komast á beinu brautina.

Þá mun Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs, kynna framtíðarsýn bæjarstjórnar og drög að tíu ára fjármálaáætlun. Í lok fundar verður tekið við spurningum úr sal.

„Verkefnið er ærið en alls ekki óyfirstíganlegt. Það felast mikil tækifæri í Sveitarfélaginu Árborg sem við ætlum okkur að nýta til þess að vaxa út úr vandanum. Það mun takast með samstilltu átaki,“ segir Fjóla í samtali við sunnlenska.is

Fyrri greinSveitarfélagið endurnýjar samning við FBSH
Næsta greinÍ beinni: Fjármál Árborgar