Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, hefur farið þess á leit við verkefnisstjórn rammaáætlunar að taka tiltekna virkjunarkosti aftur til mats í samræmi við ákvæði laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun svo verndarsvæði þeirra verða afmörkuð með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.
Í mars í fyrra felldi Hæstiréttur úr gildi friðlýsingu verndarsvæðis Jökulsár á Fjöllum frá 10. ágúst 2019. Var það forsenda dómsins að framkvæmd friðlýsingarinnar hafi verið ólögmæt, þar sem Alþingi hafði ekki fjallað um afmörkun verndarsvæðisins líkt og lög gera ráð fyrir. Friðlýsing sex svæða á Suðurlandi var í kjölfarið afturkölluð á sömu forsendum.
Svæðin á Suðurlandi sem ráðherra hefur óskað eftir að verkefnisstjórn rammaáætlunar taki til endurmats eru Geysir, Kerlingarfjöll, Tungnaá, Brennisteinsfjöll í Ölfusi, Hólmsá í Skaftárhreppi og Jökulfall og Hvítá.
Umræddir virkjunarkostir voru flokkaðir í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar með þingsályktun í febrúar 2013. Ný áætlun tók hins vegar gildi í júní 2022 og er þessa virkjunarkosti ekki að finna í þeirri áætlun.
Það þýðir að kostirnir þurfa að fara aftur í gegnum ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar og Alþingi þarf að flokka þá á ný í verndarflokk áætlunarinnar með skýrt afmörkuðu verndarsvæði til að hægt sé að friðlýsa þá aftur í samræmi við niðurstöðu dómsins.