Verkfall hefur víðtæk áhrif á starfsemi HSu

Á miðnætti þann 15. október hefst verkfall sjúkraliða og SFR á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þetta er fjórða verkfall stéttarfélaga sem skellur á stofnunina á innan við tólf mánuðum.

Í fréttatilkynningu frá HSu segir að verkfallið muni hafa víðtæk áhrif á starfsemi stofnunarinnar, þar má sérstaklega nefna bráðaþjónustu stofnunarinnar þ.e. lyflækningardeildina á Selfossi og sjúkradeildina í Vestmannaeyjum. Reynt hefur verið að útskrifa af deildunum eins og mögulegt er.

Verkfallið hefur einnig mikil áhrif á heimahjúkrun stofnunarinnar á Suðurlandi, en þjónusta heimahjúkrunar er nú fullbókuð og þjónustusvæðið víðfemt.

Stjórnendur á HSu munu tryggja öryggi skjólstæðinganna að fremsta megni og munu sækja um þær undanþágur sem þörf krefur. Þetta mun þó óneitanlega draga úr þeirri þjónustu sem HSU hefur tök á að veita.

Sjúklingar, aðstandendur og íbúar Suðurlands eru beðnir um að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og á Facebooksíðu HSu.

Fyrri greinÍslandsbanki aðalstyrktaraðili fimleikanna
Næsta grein„Við eigum helling inni“