Verkföll á Suðurlandi hefjast í næstu viku

Leikskólinn Árbær á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verkföll félagsmanna hjá FOSS stéttarfélagi á Suðurlandi hefjast í næstu viku ef ekki verður samið fyrr, en FOSS er aðili að BSRB. Um er að ræða hafnarstarfsmenn og starfsmenn í leik- og grunnskólum í Árborg, Hveragerði og Ölfusi.

Mánudaginn 22. maí og þriðjudaginn 23. maí verða starfsmenn í leikskólum í Hveragerði og Árborg í verkfalli hálfan daginn, til kl. 12, eins og starfsmenn í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og skólaeldhúsi þar. Hafnarstarfsmenn í Ölfusi verða í verkfalli allan mánudaginn en ekki á þriðjudeginum.

Miðvikudaginn 24. maí verða hafnarstarfsmenn í Ölfusi í verkfalli allan daginn og starfsmenn í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og skólaeldhúsi þar hálfan daginn, til kl. 12.

Fimmtudaginn 25. maí verða starfsmenn leikskóla í Hveragerði og Árborg í verkfalli hálfan daginn, til kl. 12 og föstudaginn 26. maí verða hafnarstarfsmenn í Ölfusi í verkfalli allan daginn.

Verkföll á Suðurlandi halda svo áfram þriðjudaginn 30. maí, ef ekki semst fyrr.

Fyrri greinFrábær stemning í Mýrdalshlaupinu
Næsta greinGrýlupottahlaup 5/2023 – Úrslit